Golfklúbbur Oddfellowa GOF
Golfklúbbur Oddfellowa GOF var stofnaður 1990. Klúbburinn gerði samning við StLO sem veitti leyfi til að byggja upp og reka golfvöll í Urriðavatnsdölum fyrir Oddfellowa og fjölskyldur þeirra. Leigusamningur GOF við StLO er til 2041.
GOF hefur alltaf verið lokaður golfklúbbur og er utan Golfsambands Íslands (GSÍ). Fljótlega eftir stofnun GOF vaknaði hugmynd um að stofna Golfklúbbinn Odd (GO) til að gefa félögum í GOF möguleika á að taka þátt í keppnum á vegum GSÍ og ekki síður að opna Urriðavöll fyrir golfáhugafólki utan Reglunnar. Það fór þannig og Golfklúbburinn Oddur (GO) var stofnaður árið 1993.
Nauðsynlegt var að festa ábyrgð og skyldur í samninga og því gerði GOF framleigusamning við GO en sá samningur hefur verið endurnýjaður á nokkurra ára fresti og verður næst endurskoðaður 2025. Skv. þessum samningi greiðir GO leigu fyrir afnot af vellinum og fylgihlutum en sér jafnframt um viðhald og rekstur svæðisins.
Hlutverk GOF heur breyst nokkuð eftir stofnun GO en GOF gætir, eins og hingað til hagsmuna Reglunnar og kemur fram fyrir hönd StLO í samskiptum við GO.
Öll uppbygging þ.e. allt sem ekki flokkast undir rekstur eða viðhald og kallar á fjárútlát þarf að leggja fyrir StLO sem tekur afstöðu að fengnu áliti stjórnar GOF.